Íslandsstofa stendur með íslenskum sjávarútvegi í erlendu markaðsstarfi

Íslandsstofa og forverar hennar, hefur sinnt þjónustu við íslenskan sjávarútveg í um 30 ár. Fyrirtækjum í framleiðslu og sölu á sjávarafurðum, sem og fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn, býðst fjölbreytt þjónusta, allt frá ráðgjöf og aðstoð í undirbúningi útflutnings, til þátttöku í markaðsverkefnum á erlendum mörkuðum.

Markaðsstarf Iceland Responsible Fisheries

Íslandsstofa kynnir íslenskar sjávarafurðir undir merkjum Iceland Responsible Fisheries skv. samningi við Ábyrgar fiskveiðar ses. Kynningin miðar að því að treysta stöðu sjávarafurða á erlendum mörkuðum og styrkja ímynd Íslands sem upprunalands sjávarafurða þar sem stundaðar eru ábyrgar fiskveiðar. Vottun fiskistofna skiptir miklu í markaðsstarfinu, en hún staðfestir ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni um vistkerfi sjávar. Á vefnum ResponsibleFisheries.is er að finna ítarlegar upplýsingar um vottunarverkefnið, þátttöku fyrirtækja o.fl.

Leyndarmál þorsksins – markaðsstarf í Suður Evrópu

Rúmlega tuttugu fyrirtæki taka þátt í markaðsverkefni undir handleiðslu Íslandsstofu sem miðar það að því að styrkja stöðu saltaðra þorskafurða á Spáni, Ítalíu og í Portúgal. Gæði, hreinleiki, hefðir og fagmennska eru  meginskilaboðin og íslenska sjávarþorpið er í öndvegi í kynningunni sem er unnin undir slagorðinu „Smakkaðu og deildu leyndarmáli íslenska þorsksins (bacalao)“. Áhersla hefur verið á viðburði erlendis, samstarf við matreiðslumenn og dreifingaraðila erlendis, kynningar í kokkaskólum, notkun samfélagsmiðla auk þess sem blaðamönnum hefur verið boðið til Íslands til að kynna sér upprunalandið. Vegna þess hve vel hefur gengið er nú verið að skoða að fara inn á fleiri markaði.

Mikill ávinningur af samstarfi í sýningum erlendis

Íslandsstofa skipuleggur þátttöku fyrirtækja í sjávarútvegssýningum og kaupstefnum erlendis sem og ferðir viðskiptasendinefnda. Á sýningum í Boston, Brussel og Qingdao í Kína eru þjóðarbásar undir merkjum Íslands sem tryggir meiri slagkraft í kynningu og markaðsstarfi.

Reglulega eru skipulagðar ferðir með hóp tæknifyrirtækja og afurðafyrirtækja á erlenda markaði. Gjarnan er um að ræða samstarf við utanríkisþjónustuna og taka ráðherrar, sendiherrar og viðskiptafulltrúar gjarnan þátt í þeim verkefnum. Þá er komið á samböndum við kaupendur, farið í vettvangsskoðun og markaðsaðstæður kannaðar.

Hugvit og lausnir fyrir sjávarútveg

Íslandsstofa vinnur að því að auka áhuga og eftirspurn erlendis eftir íslensku hugviti og lausnum sem miða að aukinni nýtingu sjávarfangs og hagkvæmni í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi.

 Útlínur fyrir fyrstu skref á erlendan markað

Útlínur eru yfirheiti yfir þjónustu og aðstoð Íslandsstofu við einstök fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref á erlendum mörkuðum. Þjónusta í boði er margþætt, allt frá öflun upplýsinga og leit í gagnagrunnum yfir í aðstoð úti á mörkuðum.  Alþjóðlegt net ráðgjafafyrirtækja og viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands erlendis, veitir íslenskum fyrirtækjum aðstoð á markaði og við að finna réttu samstarfsaðilana.

Áhugaverð myndbönd

Nánari upplýsingar á islandsstofa.is og responsiblefisheries.is.