Ráðstefnan endurspeglar sterka stöðu Íslands

Marel er einn af aðalstyrktaraðilum World Seafood ráðstefnunnar á Íslandi. Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og hefur verið leiðandi í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið leggur að meðaltali 5-6% af veltu í rannsóknar- og þróunarstarf á ári hverju, sem er hæsta hlutfall sem fyrirfinnst í greininni. Tækja- og hugbúnaðarlausnir frá Marel hafa á liðnum árum gert framleiðendum kleift að hámarka nýtingu, afköst og arðsemi.

FleXicut vatnsskurðarvél er ein af vélunum frá Marel sem fjarlægir beingarðinn sjálfvirkt.

Stella Björg Kristinsdóttir, markaðsstjóri hjá Marel í fiskiðnaði, segir að sem einn af stórum framleiðendum tæknilausna á Íslandi og meðal þeirra stóru á heimsvísu líti fyrirtækið á það sem skyldu sína að styðja við ráðstefnu sem þessa sérstaklega þegar hún er haldin hér á landi. „Við sækjum þessa ráðstefnu alltaf þegar hún er haldin og nú þegar hún er hér á okkar heimavígstöðvum þá viljum við gjarnan stuðla að því að hún geti orðið sem glæsilegust.“ Stella segir aðkomu Marel einkum miðast við síðasta dag ráðstefnunnar sem fjallar um tækni- framfarir í sjávarútvegi og áhrif þeirra á þróunina. Þar er Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri hjá Marel, meðal frummælenda og mun fara yfir helstu tækniframfarir í vinnslu sjávarafurða síðustu árin og gera grein fyrir aðkomu Marel að þeim en Stella Björg stýrir málsstofunni.

„Tækniframfarirnar styðja ekki bara við framleiðslu sjávarafurðanna heldur nýtast þær okkur líka og gera störf okkar auð- veldari. Þannig hafa til dæmis þrívíddar hermar nýst okkur vel því með þeim getum við gert líkön af þeim hlutum sem við erum að þróa hverju sinni og kannað styrkleika þeirra og gæði.“ Stella segir að ráðstefnu- haldið hér á landi staðfesti sterka stöðu íslensks sjávarútvegs á alþjóða vettvangi. Ráðstefnan sé yfirleitt haldin á stöðum sem hafi eitthvað fram að færa og þar sem sjávarútvegur er mikilvægur.

„Það er því ánægjulegt að ráðstefnan sé nú haldin hér og að Matís hafi tekið að sér að skipuleggja hana sem mér sýnist þau vera að gera með prýði,“ segir Stella Björg Kristinsdóttir markaðsstjóri hjá Marel.